Landsmálavefur á Vestfjörđum | skutull@skutull.is
04.05.2012 - 11:57

Spáđ 9. sćti í 1. deild: Boltinn byrjar ađ rúlla 12. maí

Verđur ţetta sumariđ hans Andra Rúnars međ BÍ/Bol?  Mynd Ívar Atli Sigurjónson
Verđur ţetta sumariđ hans Andra Rúnars međ BÍ/Bol? Mynd Ívar Atli Sigurjónson
Knattspyrnuliði Ísfirðinga og Bolvíkinga er spáð 9. sæti af 12 í 1. deildinni í sumar.  Þetta kemur fram í spá þjálfara og fyrirliða allra liða í 1.deild fyrir fréttavefinn fótbolti.net.  Í umfjöllun um lið Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar, BÍ/Bol, segir að miklar breytingar hafi orðið á liðinu frá því í fyrra. Útlendingum hefur fækkað og nýr þjálfari tekinn við, Jörundur Áki Sveinsson. Fyrsti leikur liðsins verður hér vestra 12. maí gegn Víkingum frá Reykjavík. BÍ/Bol, sem stundum er nefnt skástrikið, vakti nokkra athygli í fyrrasumar fyrir góða frammistöðu undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar. Liðið var lengst af í efsta hluta 1. deildar og endaði í 6. sæti. Auk þess náði það frábærum árangri í bikarkeppninni, þegar það komst í undanúrslit og tapaði "naumlega" fyrir Íslandsmeisturum KR hér á Ísafirði 1-4, í stórskemmtilegum leik.

Í umfjöllun um liðið segir að lykilmenn liðsins verði Hafsteinn Rúnar Helgason, Pétur Georg Markan, Haukur Ólafsson og Þórður Ingason, allt baráttuglaðir leikmenn sem hafa reynslu og hraði Péturs getur verið sterkt vopn. Helsti veikleiki liðsins er fámennur hópur sem gæti leitt til vandræða seinni hluta móts þegar meiðsli og leikbönn fara að detta inn. Þá er vörnin óræð stærð. Þá verður spennandi að fylgjast með Andra Rúnari, hinum hávaxna sóknarmanni, í sumar. Þjálfarinn, Jörundur Áki Sveinsson, er mjög reynslumikill og hefur þjálfað víða. Hann hefur undanfarin ár verið aðstoðarmaður Heimis Guðjónssonar hjá FH og því verið í toppbaráttunni. Jörundur er flottur þjálfari en það hefur verið brekka fyrir hann að fá leikmenn til að fara vestur.

,,Ég er ánægður með þann liðsstyrk sem við höfum fengið og ánægður með hópinn sem ég er með en engu að síður verður breiddin okkar helsta vandamál. Við megum ekki við miklum skakkaföllum en við erum tilbúnir í slaginn. Við erum búnir að æfa vel og líkamlega og andlega erum við nokkuð góðir," segir Jörundur Áki Sveinsson þjálfari Ísfirðinga og Bolvíkinga í knattspyrnu í viðtali við vefinn fótbolti.net.  Um keppnina í 1. deild segir hann: ,,Hún verður örugglega tvískipt. Það eru lið sem verða mjög öflug og síðan eru lið sem gætu verið í efri hlutanum og sogast niður í neðri hlutann. Þetta gæti orðið mjög skemmtilegt deild."

 

Breytingar á liðsskipan BÍ/Bol

Komnir:
Dennis Nielsen frá Danmörku
Haraldur Árni Hróðmarsson frá Hamar
Haukur Ólafsson frá ÍR
Hafsteinn Rúnar Helgason frá Stjörnunni
Helgi Valur Pálsson á láni frá FH
Jorge Santos frá Portúgal

 

Farnir:
Atli Guðjónsson í ÍR
Nicky Deverdics til Englands
Kevin Brown til Skotlands
Loic Ondo í Grindavík (Var á láni)
Michael Abnett til Englands
Matthías Kroknes Jóhannsson í Fram
Óttar Kristinn Bjarnason í KV
Tomi Ameobi í Grindavík
Zoran Stamenic

 

Vefumsjón